Húsreglur og skilmálar

Setrið Vinnustofa ehf. K 640924-1440, rekur skrifstofurými við Fagradalsbraut 11A á Egilsstöðum, sem fyrirtæki og einstaklingar geta nýtt sem vinnu- og fundaraðstöðu.

Markmið Setursins er að veita stafrænum flökkurum, einyrkjum og öðrum sem stunda fjarvinnu frá Egilsstöðum hvetjandi og eflandi vinnustað. Setrinu er ætlað að skapa tækifæri fyrir fólk með ólíkan bakgrunn og fagsvið til að vinna saman, stað þar sem hægt er að víkka sjóndeildarhringinn með fyrirlestrum, skipulögðum umræðum og tillögum að fræðsluefni.

Vinnustofan er um 70 m2 að gólffleti auk kaffistofu, salernis og fundarherbergis sem er samnýtt með fasteignasölu og lögmannsstofu sem starfræktar eru í sama húsi. Átta skrifborð eru á Setrinu auk setustofu. Fundarherbergið er um 13 m2 og hentar vel fyrri 6-8 manns.

Þessar reglur voru síðast uppfærðar 22. október 2024 og öllum meðlimum Setursins ber að fylgja þeim. Markmið reglnanna er að tryggja gæði þeirrar þjónustu sem Setrið veitir og auka ánægju meðlima.

 

1.      Aðild

Einstaklingar og fyrirtæki geta verið meðlimir í samfélaginu á Setrinu. Með greiðslu áskriftar samþykkir meðlimur skilmála/húsreglur staðarins.

Meðlimir fá úthlutuðum aðgangslykli. Hver aðgangslykill er skráður á einstakling og með því hefur einstaklingurinn aðgang að Setrinu á opnunartíma. Aðild er veitt án binditíma, eða með bindingu til 6 eða 12 mánaða. Ef viðskiptavinur vill segja upp aðild skal það gert með þriggja mánaða fyrirvara. Uppsögn skal miðast við mánaðarmót.

 

2.      Virðing og samskipti

Á Setrinu er lögð áhersla á að meðlimir sýni hver öðrum gagnkvæma virðingu og tillitssemi. Þegar unnið er í sameiginlegum rýmum skal gæta þess að trufla ekki vinnufrið annarra meðlima. Meðlimir skulu sína hverjir öðrum jákvætt viðmót og almenna kurteisi.

 

3.      Gestir og börn

Meðlimir geta boðið allt að 7 gestum í fundaraðstöðu Setursins og skal meðlimur vera á staðnum með sínum gestum. Setrið tekur fyrst og fremst mið af þörfum fullorðinna en börn eru velkomin í fylgd forráðamanna. Meðlimir eru ábyrgir fyrir sínum gestum, framkomu þeirra og fylgni við þessar reglur og tjóni sem þeir kunna að valda.

 

4.      Opnunartími og bílastæði

Setrið er opið fyrir meðlimi á almennum opnunartíma sem getur tekið breytingum eftir aðstæðum, s.s. aðsókn og árstíðum. Vinnustofan er opin að lágmarki 6 daga vikunnar. Upplýsingar um opnunartíma eru aðgengilegar á vef Setursins https://www.setridvinnustofa.com/. Meðlimir skulu virða auglýstan opnunartíma. Næg bílastæði eru í boði fyrir meðlimi og skulu meðlimir Setursins leitast við að nýta bílastæði sem næst Fagradalsbraut. 

 

5.      Bókanir

Rafrænt bókunarkerfi fyrir fundarými og skrifborð er á vef Setursins https://www.setridvinnustofa.com og smáforriti sem meðlimir geta sett upp í síma. Ef fundarherbergi og skrifborð eru laus er hægt að bóka þau án fyrirvara. Vilji meðlimir tryggja aðgengi að tilteknu rými er æskilegt að bóka með hæfilegum fyrirvara. Til að tryggja góða nýtingu á borðum og fundarherbergi skal afbóka rýmin ef þau eru ekki nýtt.

Til að tryggja góða nýtingu og tryggja jafnræði notenda gilda eftirfarandi reglur um notkun fundarherbergja:

·         Hver einstaklingur getur bókað skrifborð í að hámarki 8 klst á dag.

·         Skömmu fyrir bókaðan tíma fær korthafi tölvupóst þar sem hann er beðinn að staðfesta notkun. Hafi notkun ekki verið staðfest þegar 15 mínútur eru liðnar af bókuðum tíma fellur bókunin sjálfkrafa niður og aðrir geta bókað fundarherbergið.

·         Hver einstaklingur getur aðeins bókað eitt rými í einu.

·         Hver einstaklingur getur aðeins bókað fundarýmið fyrir sig en ekki aðra starfsmenn innan fyrirtækis eða aðra einstaklinga sem eru ekki meðlimir á Setrinu.

·         Að loknum bókunartíma er skilið við bókuð rými í sama ástandi og komið var að þeim. 

 

6.      Skráning meðlima

Upplýsingar um nöfn meðlima eru vistuð til að tryggja ánægju meðlima og samfellda þjónustu. Þar eru skráð nöfn, kennitölur og netföng einstaklinga sem hafa aðild að Setrinu. Heimilisföng og símanúmer eru ekki geymd. Setrinu er heimilt að senda upplýsingar á netföng meðlima, meðlimir geta einnig afþakkað slíka póstsendingar. Vinnsla persónuupplýsinga fer fram í samræmi við ákvæði gildandi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. 


7.      Greiðslur

Aðildargjöld eru innheimt mánaðarlega með rafrænum reikningum sem sendir eru í netbanka og gjaldfalla 1. hvers mánaðar. Meðlimir geta valið að greiða aðildargjöld ársfjórðungslega eða árlega.

Ef reikningur er ekki greiddur innan 30 daga frá eindaga er lokað fyrir aðgang meðlima að Setrinu þar til gjaldfallnir reikningar hafa verið greiddir. Ef kemur til slíkrar lokunar vegna vanefnda getur Setrið Vinnustofa ehf krafið viðskiptavin um greiðslu upphæðar sem jafngildir uppsagnarfresti og binditíma skv. 1. gr. þessara reglna.

 

8.      Breytingar á skilmálum/húsreglum

Setrið Vinnustofa ehf getur breytt skilmálum og húsreglum eftir þörfum. Breytingar eru kynntar meðlimum og birtar á vefsíðu Setursins.

Athugasemdir við þessar reglur skulu sendast á framkvæmdastjóra Setursins.

 

Egilsstöðum, 22. október 2024